Fleiri eldriborgarar ættu taka þennan mann til fyrirmyndar og eiginlega allir.

 Tekið af visir.is

Fær fingurkossa fyrir ljós á göngugrindinni


Helgi Pálmarsson sést um langan veg í umferðinni og er miklu öruggari eftir að hann lét festa rautt öryggisljós sem blikkar á göngugrindinni hans.Fréttablaðið/Anton

„Ég veit ekki hvað ég hef fengið mörg vink og marga fingurkossa frá kvenfólkinu sem keyrir bílana eftir að ég setti ljósin á göngugrindina," segir Helgi Pálmarsson, 76 ára göngugarpur í Reykjavík.

Helgi segist hafa viljað auka öryggi sitt þegar hann fari út að ganga. Hann hafi keypt sér ljósabúnað í Markinu og starfsmenn verslunarinnar fest búnaðinn á fyrir hann. Eitt ljós vísi aftur og annað fram. Ljósin gangi fyrir rafhlöðum og eigi að endast í allt að eitt þúsund klukkustundir.

„Ég læt ljósið alltaf vera hægra megin við mig og geng beint á móti umferðinni. Þetta sést langan veg," útskýrir Helgi sem kveður ljósin þegar hafa sannað notagildi sitt. „Þau eru búin að bjarga mér sex sinnum frá því að lenda fyrir bílum sem annaðhvort hafa sveigt framhjá mér eða stoppað þegar ég hef verið að ganga yfir götu."

Margir hafa að sögn Helga veitt öryggisbúnaðinum eftirtekt. „Það stoppaði strætisvagn hjá mér í morgun og bílstjórinn spurði hvort það væri eitthvað að hjá mér. Ég sagði honum þá að ég væri með þetta til að bílstjórar sæju að þarna væri maður með göngugrind. Hann var svo hrifinn að hann kom út úr vagninum og þakkaði mér fyrir að setja ljósin á göngugrindina af því að þau sjást langan veg," segir Helgi.
Lögreglan hefur líka haft afskipti af Helga.

„Það stoppaði mig lögregluþjónn á Kringlumýrarbrautinni. Hann sagðist endilega þurfa að fá upplýsingar hjá mér og ég útskýrði ljósin. Hann var mjög ánægður, sagði að þetta þyrfti að koma á allar göngugrindur," segir hugvitsmaðurinn.

Jafnframt kveðst Helgi hafa fengið hrós frá fjórum leigubílstjórum sem hafi komið út úr bílum sínum til að skoða göngugrindina. „Þeir tóku í höndina á mér og þökkuðu mér fyrir því þarna væri komið eitt almesta viðvörunarkerfi í umferðinni," segir Helgi og undirstrikar að kerfið geti líka virkað á göngustöfum.

„Það væri mikill plús fyrir þá sem sjá illa, til dæmis gamalt fólk, að sjást langt að og vara þannig aðra í umferðinni við."

Reyndar er þetta ekki í fyrsta sinn sem sagt er frá Helga í fjölmiðlum í sambandi við umferðaröryggi. Fyrir nokkru fékk hann aðsvif undir stýri á bíl sínum og skilaði þá sjálfviljugur inn ökuskírteini sínu. „Ég sá að ég gæti kannski keyrt á unglinga sem væru að leika sér á götunni og þeir jafnvel lent örkumla ævilangt í hjólastól. Ég gæti ekki lifað við það."

gar@frettabladid.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband